The more I travel, learn and experience, the more I realize how little I know of the world
Astekar kölluðu veikindin sjálfir cocoliztli, sem lauslega þýðist einfaldlega sem drápssótt. Einkenni sjúkdómsins voru hár hiti, höfuðvekrur og blæðingar úr augum, munni og nefi. Smitaðir létust yfirleitt innan þriggja eða fjögurra daga.
Með nýjum erfðagreiningum á tönnum löngu látinna fórnarlamba drepsóttarinnar hafa vísindamenn útilokað mislinga, bólusótt, hettusótt og flensu. Eftir DNA rannsókn á 29 beinagrindum úr grafreit þar sem fórnarlömb drepsóttarinnar voru grafin telja vísindamennirnir sig komna að niðurstöðu. Þeir fundu afbrigði af salmonellubakteríum sem geta valdið taugaveiki C.
Åshild Vågene, vísindamaður við háskólann í Tuebingen í Þýskalandi, segir í samtali við Guardian að cocoliztli sé ein af fjölmörgum sóttum sem herjuðu á Asteka eftir komu Evrópumanna. Drepsóttin var önnur af þremur útbreiddustu farsóttunum á svæðinu, og sú sem dró langflesta til dauða. Talið er að þær 15 milljónir sem létust af völdum hennar hafi verið um 80 prósent allra Asteka. Greint er frá niðurstöðum vísindamannanna í nýjasta hefti vísindaritsins Nature Ecology and Evolution.
Um tveimur áratugum fyrir drepsóttina, cocoliztli, létust um fimm til átta milljónir Asteka úr stórubólu, sem barst með spænsku landnemunum. Á seinni hluta áttunda áratugs sextándu aldar kom upp annað tilfelli cocoliztli, þá lést helmingur þeirra Asteka sem eftir voru.
Vitað er til þess að salmonella hafi verið til í Evrópu á miðöldum. Hún getur borist með sýktum mat eða vatni, og gæti því verið að hún hafi komið til Mexíkó með dýrum sem Spánverjar tóku með sér yfir Atlantshafið.
You must be logged in to post a comment.